Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Kvenfélag Garðabæjar færði Ísafold gjöf

23.06.2016
Kvenfélag Garðabæjar færði Ísafold gjöf

Það var mikill gleðidagur í dag þegar Kvenfélag Garðabæjar færði Ísafold glæsilegt hjól að gjöf. Ágústa Magnúsdóttir formaður kvenfélagsins afhenti Ingibjörgu Valgeirsdóttur, framkvæmdastjóra öldrunar- og heimaþjónustu Garðabæjar, hjólið fyrir hönd félagskvenna. Með hjólinu skapast ómetanleg tækifæri til að komast í sterkari tengsl við fallega náttúruna í kringum Ísafold en fjölmargar fallegar göngu- og hjólaleiðir eru á svæðinu. Er gjöfin enn eitt dæmi um hug kvenfélagskvenna til Ísafoldar en félagið hefur staðið þétt að baki hjúkrunarheimilinu frá því að það opnaði fyrir rúmum þremur árum.

Hjólið er hluti af verkefninu Hjólað óháð aldri og hélt Sesselja Traustadóttir frá Hjólafærni tölu við athöfnina en Sesselja er frumkvöðull að verkefninu hérlendis. Hjólið, sem kemur frá Danmörku og er nefnt Kristjaníuhjólið, er rafmagnshjól og geta tveir setið í því í einu auk hjólreiðamanns.

Í kjölfar afhendingarinnar var kvenfélagskonum og íbúum Ísafoldar boðið upp á hjólatúr. Þær Sólveig Þráinsdóttir sjúkraþjálfari og Guðbjörg Björnsdóttir iðjuþjálfi hafa umsjón með verkefninu á Ísafold. Á næstu dögum verður auglýst námskeið í samstarfi við Hjólafærni fyrir aðstandendur, starfsfólk og sjálfboðaliða en allir hjólreiðamenn þurfa að fá sérstaka kennslu á hjólið. Nú þegar hafa starfsmenn á Ísafold sótt slíkt námskeið.

Þökkum við Kvenfélagi Garðabæjar innilega fyrir rausnarlega gjöf og vinarhug.

Til baka
Hafðu samband